Thursday, July 07, 2005

Haloscan commenting and trackback have been added to this blog.

Tuesday, July 05, 2005

„Lygin er lífsnauðsyn.“ Það segi ég. Hvar værum við án hennar? Líklega á sama stað og núna, en eitt er víst að sá staður yrði ekki eins og núna. Heldur allt öðruvísi. Það held ég að sé óhætt að fullyrða. Ég meina lygin á sinn stað í tilverunni og skipar það mikilvægt hlutverk í lífi okkar að væri henni kippt í burtu, hvernig svo sem það yrði gert, myndi það hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Er lífið þá byggt á lygi? Þægilegasta svarið væri kannski: „meðal annars.“ Í þessu samhengi langar mig að benda á skemmtilega sálfræðirannsókn, í nýjasta tímariti Scientifical American Mind, sem Hjalti Kristinsson var svo góður að leyfa mér að kíkja í. En þar var sýnt fram á samband milli þunglyndis og lygaskorts, eða sjálfsblekkingarskorts sem ef til vill er heppilegra orð. Þunglyndi einstaklinga má sem sagt, að hluta til, rekja til þess að þeir eiga bágt með að ljúga eða blekkja sjálfa sig, samkvæmt téðri rannsókn. Og af því leiðir að lífsgleði einstaklinga má, að hluta til, rekja til þess að þeir eiga auðveldara með að ljúga eða blekkja sjálfa sig. Því getum við sagt: „lygin er lífsgleðigjafi“, eða: „sjálfsblekking er sæluaukandi.“ En ljúga hverju að sjálfum sér? Eins og ég skrifaði hér í síðasta pistli, þá er það ljóst að ég mun deyja, þú munt deyja, allir sem þú þekkir munu deyja, komandi kynslóðir munu deyja. Auk þess sem heimurinn er að þenjast út, eins og blaðra, og mun á endanum springa. Þetta er ekkert sérlega uppörvandi. Gagnvart þessum ísköldu og stingandi staðreyndum, gagnvart þessum miskunnar – og merkingarlausa heimi er lygin möst. Heimurinn er myrkur og það eina sem fær lýst hann upp er ljós lyginnar (svo ég leyfi mér að gerast skáldlegur). Hér er þó eitt vandamál á ferð. Hvernig í ósköpunum fer maður að því að ljúga að sjálfum sér? Er sjálfsblekking möguleg? Ég dreg það stórlega í efa. Því að til þess að ljúga að einhverjum er nauðsynlegt að vita betur en sá sem þú lýgur að. Sá sem ætlar sér að ljúga verður með öðrum orðum að vera sá sem veit betur, á meðan sá sem logið er að verður að vera sá sem ekki - veit. Þannig að ef maður ætlar að ljúga að sjálfum sér þarf maður að vera báðir einstaklingarnir, sá sem veit betur og sá sem ekki- veit. En samkvæmt mótsagnarlögmáli Aristótelesar (ekkert getur bæði verið heitt og kalt, ekki er hægt að vera bæði úti og inni o.s.frv.) gengur það ekki upp. Þar af leiðandi er sjálfsblekking ekki möguleg og niðurstaðan því eftirfarandi: við erum öll þunglynd. Ég er þunglyndur, þú ert þunglynd/ur, allir sem þú þekkir eru þunglyndir, komandi kynslóðir munu vera þunglyndar. Auk þess sem heimurinn er að þenjast út, eins og blaðra, og mun á endanum springa úr þunglyndi. Svo kviknar líf að nýju; enn þunglyndislegra en okkar og þannig koll af kolli. Okkar líf, sem brátt tekur enda, er því ekki eins þunglyndislegt og þau næstu. Það ætti að veita okkur einhverja lífsgleði!

Pistillinn í hnotskurn (rökskipurit)

1. Sjálfsblekking (gagnvart böli heimsins) = meiri lífsgleði.
2. Sjálfsblekkingar-skortur (gagnvart böli heimsins) = meira þunglyndi.
3. Sjálfsblekking er ekki möguleg, samkvæmt mótsagnarlögmáli Aristótelesar.
(og þar með getum við strokað yfir lið nr. 1.)
4. Og eftir stendur því algjört þunglyndi.

Monday, July 04, 2005


„Nothing matters and we know nothing matters – that matters“, sagði Charles Bukowski í einni af ljóðabókum sínum, og velti ég því fyrir mér hvort þessi orð séu nokkuð svo fjarri sanni? Geta ekki allir fallist á þetta? Nú er það fullkomlega ljóst að ég mun deyja, þú munt deyja, allir sem við þekkjum munu deyja og komandi kynslóðir munu deyja. Er því eitthvað rangt við að segja að þetta sé allt saman bara prump í eilífðinni? Þá meina ég lífið. Það eina sem skiptir máli er að átta sig á því að ekkert skiptir máli. Bölvuð sé tómhyggjan!, gæti einhver sagt við lesningu ofanverðra orða og fengið þar með Albert Camus til þess að snúa sér við í gröfinni. (Eða, nei ég held að hann yrði alveg rólegur; hann myndi ekkert snúa sér eins og einhver hálfviti.) En hann myndi ekki heldur skrifa undir þá fullyrðingu Bukowski´s að ekkert skipti máli, því að þó svo að hann væri þeirrar skoðunar að lífið væri fjarstæða, taldi hann að það væri eitt sem skipti höfuðmáli. Sjálfsmorðið. Hann taldi að mikilvægasta úrlausnarefni mannsins væri spurningin: er lífið þess virði að lifa því? Hvort að heimurinn sé í þrívídd eða hvort jörðin snýst um sólina, eða öfugt, er aukaatriði miðað við tilhugsunina um sjálfsmorðið, sem er grundvallarspurning heimspekinnar og raunar lífsins sjálfs. Því að í þessari stóru spurningu liggur sannleikurinn sem menn eru tilbúnir að deyja fyrir, en hið sama á ekki við aðrar spurningar. Það er, m.ö.o., enginn annar sannleikur sem er þess virði að deyja fyrir. Hvenær vaknar þessi spurning? Það hlýtur að vera þegar við stöndum berskjölduð gagnvart tilgangs og merkingarleysu tilverunnar. En þá áttum við okkur líka á því að við erum til –„ í angist neindarinnar verður sjálf veran okkur ljós“, eins og Heidegger komst að orði. Það er þó annað mál og lengra. Hér gæti ég, í ljósi ofanverðra orða um tilgangsleysi heimsins, varpað fram tennislíkingu um lífið sem eflaust er mörgum kunnug, eða reynt að endursegja goðsögnina um Sysifus sem dæmdur var, af guðunum, til þess að ýta stein upp brekku til eilífðarnóns. En ég nenni því ekki. Heldur vil minnast orða Megasar þegar hann var spurður að því hvort hann hafi aldrei íhugað að farga sér: „ég sé enga ástæðu til þess að fara áður en ég er sóttur.“ Þetta þykja mér sterkustu rökin fyrir því að lifa lífinu. Það er því ljóst að eitthvað skiptir máli, en ef ekkert skiptir máli þá er óþarfi að gera mál út af engu. Er það ekki jákvætt?

Tuesday, June 28, 2005

„Með guðunum rengirðu raunverulega öll þín skilvit“

Tilvist guðanna, hverjir svo sem þeir kynnu að vera, verður aldrei sönnuð. Ekki þarf langan umhugsunarfrest til þess að komast að þessu. En engu að síður hafa menn, í gegnum aldirnar, reynt að hnoða saman slíkar sannanir (og gera líklega enn). Raunar heyrði ég sögu af manni í Háskóla Íslands sem hallaði sér aftur í stól sínum, glotti út í annað yfir vantrú samnemenda sinna, og sagði: „bíðið bara... raunvísindin eiga eftir að sanna tilvist guðs.“ En það sem ég vildi sagt hafa er að upphafssetningin hér að ofan, sem sótt er í texta Megasar, eins og glöggan lesanda kann að hafa grunað, rímar skemmtilega við margt í heimspeki Danans knáa Sören Keirkegaard. Ég vil því leyfa mér að setja upp svip menningarvitans, (sem að öllum líkindum gengur í tvítjakka með bótum á olnbogunum og drekkur rauðvín), um leið og ég kalla setninguna Kierkegaardíska: fólk verður að trúa í krafti fjarstæðunnar - hún er grundvöllur trúarinnar. Skoðanir sem þessar fengu á sínum tíma trúrækna skynsemishyggjumenn til að reyta hár sitt. En hvað er að trúa í krafti fjarstæðunnar? Í þriðju myndinni um fornleifafræðinginn Indíána Jones er gott skýringardæmi, þar sem hann stendur ráðþrota á bjargsbrún, frammi fyrir hyldýpisgjá, sem hann þarf að komast yfir ætli hann ekki að láta skúrkana ná sér. Spennan er yfirþyrmandi þegar hér er komið við sögu því engin lausn virðist í sjónmáli. En þá er honum tjáð að fyrir framan hann sé ósýnileg brú og það eina sem hann þurfi að gera sé að ganga af stað. Og viti menn! Þvert á öll skynfæri og þvert á alla skynsemi gengur fornleifafræðingurinn með kúrekahattinn og svipuna yfir gjána - á hinni ósýnilegu brú. Það virtist alger geðveiki – hrein fjarstæða- að treysta því að þarna væri brú sem varnaði því að hann einfaldlega hyrfi ofan í myrkur hyldýpisgjárinnar. En hann gekk af stað í krafti fjarstæðunnar og rengdi þar með öll sín skilvit líkt og menn gera með guðunum.

Þetta var þankaganga, þankahríð eða kannski frjálsar hugrenningar, eins og Freud hefði líklega orðað það, út frá einni setningu úr ljóðum Megasar og mun ég reyna að gera það venju minni að hefja mig til slíks (hugar-) flugs hér áfram.

Saturday, June 25, 2005

PRUFA